Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ráðherra ýtti Landsátaki í málefnum fatlaðra úr vör á fundi í Duus Safnahúsum
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra, talar til fundarins í Duus. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 18. júní 2023 kl. 06:30

Ráðherra ýtti Landsátaki í málefnum fatlaðra úr vör á fundi í Duus Safnahúsum

Fyrsti áfangastaður í hringferð Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra, í Landsátaki í málefnum fatlaðra var Duus Safnahús í Reykjanesbæ í síðasta mánuði. Markmið átaksins er að mynda heildræna stefnu í málefnum fatlaðra og móta áherslur við innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Fundurinn fór vel fram og Guðmundur Ingi fór ítarlega yfir markmið átaksins og kynnti framtíðarsýn vinnuhópa ráðuneytisins. Þór Garðar Þórarinsson, verkefnastjóri Landsátaksins, sagði frá hugmyndafræðinni sem liggur að baki verkefnisins og fór yfir helstu dagsetningar sem tengjast framvindu þess. Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, formaður verkefnastjórnunar Landsátaksins, fór yfir hlutverk vinnuhópa sem vinna að stefnumótun í málefnu fatlaðra. Unnur Óttarsdóttir, formaður Landssambandsins Þroskahjálpar, og Rúnar Björn Herrera Þorkelsson, fulltrúi Öryrkjabandalags Íslands, sögðu frá sjónarhorni hagsmunafélaga á fundinum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Að fundi loknum fengu allir fundargestir tækifæri til að koma sínum skoðunum á framfæri og ræða málin við fulltrúa Landsátaksins. Fjörugar umræður spunnust og ljóst að fundargestir höfðu fjölmargt til málsins að leggja. Þar kom meðal annars fram að eitt helsta áhyggjuefni Suðurnesjabúa er aðgengi fatlaðra að heilbrigðisþjónustu en fatlaðir þurfa að sækja nánast alla sértæka heilbrigðisþjónustu til höfuðborgarsvæðisins. Þá voru einnig viðraðar skoðanir á hægfara kerfi þegar kemur að greiningum og stuðningi við fatlað fólk. Félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra kom inn á að þarna þurfi að koma til aukins samstarfs milli hans ráðuneytis og heilbrigðisráðuneytinu við að finna lausnir á þessum málum.

Ráðherra hlýddi áhugasamur á hugmyndir Suðurnesjabúa á fundinum.


Guðmundur Ingi sagði það hafa verið frábært að fá að hefja þessa vegferð í Reykjanesbæ og eiga samtal við fólk um stefnumótun í málefnum fatlaðs fólks.

„Við erum í raun að setja saman áætlun um hvernig við ætlum að koma samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks til framkvæmda,“ sagði Guðmundur Ingi í samtali við Víkurfréttir að fundi loknum.

„Þetta verður landsáætlun með fjölda aðgerða til þess að ná því markmiði – og markmiðið er náttúrlega að bæta lífsgæði fatlaðs fólks, auka þátttöku þess í samfélaginu og draga úr þeim hindrunum sem fatlað fólk verður fyrir í daglegu lífi.“

Er eitthvað öðru fremur sem þú leggur áherslu á í þessum aðgerðum?

„Ég vil kannski nefna að í þessum fyrsta fasa sem við erum að fara í verður lögð sérstök áhersla á vitundarvakningu. Það er að segja að vekja athygli á málefnum fatlaðs fólks, þeim hindrunum sem mæta þeim í samfélaginu og hvernig við getum tekist á við þær hindranir – en ég hef líka verið að leggja áhersla á, til hliðar við þetta verkefni, tækifæri fólks til bæði náms og starfa, því það að auka möguleika fatlaðs fólks á meiri virkni og þátttöku í samfélaginu skiptir svo miklu máli fyrir lífsgæði fólks. Svo skiptir það líka máli fyrir samfélagið okkar því það verður ríkara eftir því sem fleira fatlað fólk tekur virkan þátt í samfélaginu.“

Hlutverk hins opinbera er að jafna möguleika fólks til þátttöku í samfélaginu

„Að mínu viti er það hlutverk hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, að aðstoða fólk við þátttöku í samfélaginu sem á einhvern hátt getur ekki stigið öll skrefin sjálft. Við getum tekið sem dæmi, fötluð manneskja sem fer út á vinnumarkaðinn getur í einhverjum tilvikum þurft meiri aðstoð en ófötluð manneskja og þá á hún að fá aðstoð til þess að geta verið virkur þátttakandi í samfélaginu, til þess að fá sömu tækifæri og ófötluð manneskja. Það er kannski lykillinn að því að búa til samfélag sem er opnara, vinnumarkað sem er opnari og líka samfélag sem er meðvitaðra um þann mannauð sem felst í minnihluta- og jaðarhópum. Ekki síst fötluðu fólki því sá mannauður er ríkur,“ sagði Guðmundur Ingi meðal annars í viðtali við Víkurfréttir en hann sagðist eiga í samtali við sveitarfélögin þessa dagana um kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga í þessum málaflokki og vonast til að fá tillögur um það síðar á árinu. Ríkið setti fimm milljarða aukalega inn í málaflokkinn um síðustu áramót því hann hefur vaxið mikið í kostnaði á undanförnum árum samhliða meiri þjónustu sem hefur bætt lífsgæði fólks sem er lokatakmarkið.

Þór Garðar Þórarinsson, verkefnastjóri Landsátaksins, lýsti framtíðarsýn í málefnum fatlaðra.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á fundinum og myndasafn er neðst á síðunni. Þá er viðtal við Guðmund Inga í spilaranum hér að neðan. 


Þakkir til Suðurnesjabúa

Nýlega hófum við í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu hringferð um landið í því augnamiði að ræða milliliðalaust við landsmenn um nýja heildræna stefnu í málefnum fatlaðs fólks og hvað fólki er efst í huga á hverjum stað. Fyrsti áfangastaður var Duus safnahús í Reykjanesbæ.

Loksins lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks skuli lögfestur á kjörtímabilinu og ný mannréttindastofnun sett á laggirnar. Þessi verkefni eru á forræði forsætisráðuneytisins og eru í vinnslu en við í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu vinnum nú í víðtæku samráði við hagsmunasamtök fatlaðs fólks, ráðuneyti, sveitarfélög og almenning að gerð landsáætlunar til að tryggja farsæla innleiðingu samningsins. Þ.e.a.s. að koma þeim skuldbindingum sem felast í samningnum til framkvæmda hérlendis.

Landsáætlun um framkvæmd samningsins

Þó svo að margt hafi færst til betri vegar á undanförnum árum og áratugum, þá nýtur fatlað fólk færri tækifæra og stendur frammi fyrir fleiri hindrunum í daglegu lífi en ófatlað fólk. Til dæmis eru tækifæri til menntunar og atvinnu færri og fatlað fólk er líklegra til að missa vinnuna á undan öðrum og verða fyrir margvíslegu ofbeldi. Þetta er óréttlæti sem felur í sér ójöfnuð og skert lífsgæði sem ég á erfitt með að kyngja og þess vegna legg ég áherslu á breytingar.

Með aðgerðum í landsáætlun um innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks mun verða grundvallarbreyting hvað varðar viðurkenningu á réttindum, menntun, störfum og aðgengi fatlaðs fólks að samfélaginu.

Við höfum hafið mikilvæga vegferð og ég vil þakka Suðurnesjabúum fyrir afar góða umræðu og innlegg í þessa mikilvægu vinnu.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson,
félags- og vinnumarkaðsráðherra.

Landsátak í málefnum fatlaðra í Duus maí 2023